Stjórnvöld í Pakistan hafa brugðist ókvæða við þeim hugmyndum sem skotið hafa upp kollinum í Bandaríkjunum að mögulegt sé að bandarískar hersveitir verði sendar til Pakistan í þeim tilgangi að ná Osama bin Laden.
Háttsettur bandarískur embættismaður hefur látið hafa eftir sér að hann telji að Bin Laden, sem er leiðtogi al-Qaeda og heilinn á bak við hryðjuverkaárásirnar þann 11. september árið 2001, sé í felum í Norður-Pakistan.
Utanríkisráðherra Pakistan, Khurshid Kasuri, er á öðru máli en hann segir að bin Laden sé ekki í landinu.
Í nýlegri skýrslu bandarísku leyniþjónustunnar kemur fram að al-Qaeda sé að eflast og reyni eftir fremsta megni að koma útsendurum sínum til Bandaríkjanna. Bent er á í skýrslunni að líkurnar á því að önnur hryðjuverkaárás verði gerð í Bandaríkjunum hafi aukist verulega.
Sérfræðingar hafa varað við því að leiðtogar al-Qaeda hafi fundið skjól í ættbálkahéruðum landsins þar sem þeir hafa komið saman.
BBC greindi frá þessu.