Þrjátíu manns hafa látist í mikilli hitabylgju í Rúmeníu undanfarna daga. Alls létust tólf síðasta sólarhringinn, flestir þeirra voru komnir yfir sjötugt, að sögn heilbrigðisráðherra Rúmeníu, Eugen Nicolaescu. Í síðasta mánuði létust þrjátíu hitabylgju í Rúmeníu.
Að sögn Nicolaescu hafa yfir 860 fallið í yfirlið á götum úti vegna hitans og sjúkraliðar hafa þurft að sinna yfir tíu þúsund símtölum.
Viðvaranir voru gefnar út víða í Rúmeníu í dag en þar er hitinn 41 gráða líkt og í gær. Hefur heilbrigðisstarfsfólk verið kallað út úr sumarleyfum og neyðarskýli opnuð þar sem fólk getur fengið vatn að drekka auk þess að fá neyðarþjónustu.
Þar sem loftkælingar eru þandar til hins ýtrasta hefur rafmagnsnotkun farið upp úr öllu valdi. Þetta hefur kostað rafmagnsleysi víða þar sem álagið hefur reynst of mikið á spennustöðvar.