Englandsdrottning stappar stálinu í þjóðina

Íbúum Tewkesbury á mið-Englandi komið til bjargar .
Íbúum Tewkesbury á mið-Englandi komið til bjargar . Reuters

Elísabet Englandsdrottning sendi í dag þeim, sem orðið hafa illa úti í flóðunum í Bretlandi að undanförnu, samúðarkveðjur. Þá hétu bresk yfirvöld því í dag að verja tíu milljónum punda til uppbyggingarstarfs á þeim svæðum sem vert hafa orðið úti í flóðunum til viðbótar við þær fjórtán milljónir punda sem yfirvöld höfðu þegar heitið úr náttúruhamfarasjóðum. Þetta kemur fram á fréttavef Sky.

“Vinsamlegast komið samúð minni á framfæri við alla þá sem hafa þurft að horfa upp á eyðileggingu á heimilum sínum og lífsviðurværi og einnig þeirra sem hafa orðið fyrir óþægindum vegna rafmagns– og vatnsskorts," segir í yfirlýsingu drottningarinnar. Þá lýsir hún aðdáun sinni í garð þeirra sem staðið hafa að björgunaraðgerðum á svæðinu.

Rúmlega 340.000 manns geta átt von á því að verða án rennandi vatns í allt að tvær vikur í kjölfar flóðanna og óttast heilbrigðisyfirvöld í landinu að farsóttir geti brotist út vegna skorts á hreinu neysluvatni. Vatnsveitan Severn Trent Water hefur því sett upp 400 vatnstanka í Cheltenham, Gloucester og Tewkesbury og vinna 40 tankbílar að því allan sólarhringinn að fylla á tankana. Stefnir fyrirtækið að því að útvega hverjum einstaklingi á flóðasvæðunum fjóra lítra af drykkjarvatni á dag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert