Háttsettur talibani í Pakistan sprengdi sjálfan sig í loft upp

Háttsettur talibani í Pakistan framdi sjálfsmorð þegar hann sprengdi sjálfan sig í loft upp er til átaka kom á milli hans og öryggissveita í landinu. Maðurinn var m.a. eftirlýstur fyrir að hafa rænt tveimur kínverskum verkfræðingum árið 2004.

Abdullah Mehsud tók pinnann úr handsprengju þegar pakistanskir hermenn gerðu áhlaup á felustað hans í Zhob-hverfinu í Baluchistan-héraðinu sem er í suðvesturhluta landsins.

Að sögn hersins voru þrír samverkamenn Meshuds handteknir.

Mehsud var fangi í Guantanamó-fangelsi Bandaríkjahers á Kúbu. Hann varð síðar leiðtogi pakistanskra talibana í Suður-Waziristan þegar pakistanskar hersveitir hófu heraðgerðir í héraðinu árið 2003.

Í október árið 2004 rændu uppreisnarmenn, sem voru undir stjórn Mehsud, tveimur kínverskum verkfræðingum sem unnu að smíði stíflu í Suður-Waziristan. Annar mannanna lést þegar gerð var misheppnuð tilraun til þess bjarga mönnunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert