Heilbrigðisstarfsmennirnir sex, sem hlutu lífstíðardóma í Líbýu, hafa verið sendir í flugvél til Búlgaríu að sögn embættismanna í Frakklandi og Búlgaríu. Um er að ræða fimm búlgarska hjúkrunarfræðinga og palestínskan lækni sem voru dæmd fyrir að smita líbýsk börn af HIV-veirunni.
Sendinefnd á vegum Evrópusambandsins hefur að undanförnu verið í Trípólí, höfuðborg Líbýu, til að vinna að lausn hjúkrunarfræðinganna og læknisins. Fólkið hefur ávallt neitað sök. Yfirvöld í Líbýu fóru fram á að fólkið yrði dæmt til dauða fyrir verknaðinn, en dómurinn var síðar mildaður í lífstíðarfangelsi.
Stjórnvöld í Búlgaríu hafa farið fram á það með formlegum hætti að hjúkrunarfólkið verði sent til síns heimalands svo það geti tekið út sína refsingu þar.
Palestínski læknirinn hlaut búlgarskan ríkisborgararétt í síðasta mánuði. Sexmenningarnir hafa setið í fangelsi í landinu frá 1999 þegar fólkið var sakað um verknaðinn og síðan sakfellt fyrir að hafa vísvitandi smitað börn af HIV-veirunni.
Fólkið segir að pyntingum hafi verið beitt til að fá fram játningar.
Að sögn sérfræðinga hófust sýkingarnar áður en heilbrigðisstarfsmennirnir hófu störf á barnaspítalanum, því megi rekja sýkingarnar til óhreinlætis á sjúkrahúsinu.
BBC greindi frá þessu.