Yfirvöld í Íran hafa aukið stuðning við uppreisnarmenn í Írak síðan að viðræður við Bandaríkin hófust að sögn sendiherra Bandaríkjanna í Írak eftir fund með sendiherra Írans í Bagdad.
Ryan Crocker, sendiherra Bandaríkjanna, segir aðgerðir uppreisnarmanna sem hljóta stuðning frá Íran hafa aukist en ekki minnkað að undanförnu. Ríkin hafa átt í útistöðum lengi um ýmis mál, en fundurinn í dag beindist að málefnum Íraks einvörðungu.
Ríkisstjórn Bandaríkjanna ásakar Írana um að kynda elda stríðsins með því að styðja við bakið á hryðjuverkahópum og segjast hafa handtekið nokkra menn sem vinna fyrir stjórnvöld í Íran og hafa lagt hald á sendingar með nýjum írönskum vopnum. Yfirvöld í Íran kenna Bandaríkjaher um ofbeldið í Írak og vísa ásökunum um stuðning á bug.