Fimm kínverskir karlmenn voru ákærðir fyrir að hafa stolið 51 milljón júan, eða rúmlega 400 milljón króna, og keypt fyrir peninginn lottómiða í tilraun til þess að vinna upphæðina til baka, svo þeir gætu skilað peningunum og átt afganginn sjálfir.
Bankastarfsmennirnir Ren Xiaofeng, og Ma Xiangjing eru ásakaðir um að hafa rænt Landbúnaðarbanka Kína í einu undarlegasta bankaráni sögunnar, segir í frétt Xinhua fréttastofunnar.
Ren og Ma sáu um peningageymslu bankans þegar þeir hófu að fjarlægja peninga í nokkrum atrennum og kaupa fyrir þá í lottómiða. Tvíeykið hélt að með því að kaupa lottómiða fyrir milljónir júan gætu þeir unnið nóg til þess að skila aftur peningunum í bankann, en hirða afganginn og segja skilið við láglaunastörf fyrir lúxuslíf.
Í fyrstu vann Ren með þremur öðrum og stal um 200.000 júan. Hann skilaði þeirri upphæð aftur í bankann. Það var ekki fyrr en hann fór að vinna með Ma að hann stal rúmum 50 milljónum til viðbótar úr bankanum á 30 dögum. Ræningjarnir eyddu 47 milljón júan í lottómiða, en þegar þeir unnu ekkert lögðu þeir á flótta. Þeir voru gripnir af lögreglunni nokkrum dögum síðar.