„Bandaríkin misnotuðu breskar leyniþjónustuupplýsingar"

Fangi fluttur í fangelsi Bandaríkjahers á Guantanamo.
Fangi fluttur í fangelsi Bandaríkjahers á Guantanamo. AP

Breska leyniþjónustan segir bandarísk yfirvöld ekki hafa tekið tillit til athugasemda breskra yfirvalda í baráttu sinni gegn hryðjuverkum þrátt fyrir ítrekaðar yfirlýsingar um náið samstarf þjóðanna í málinu. Þá telja breskir leyniþjónustumenn að framkoma Bandaríkjamanna í málinu muni hafa alvarlegar afleiðingar fyrir samstarf leyniþjónusta þjóðanna í framtíðinni. Þetta kemur fram í niðurstöðum breskrar nefndar sem fjallað hefur um þátt Breta í fangaflutningum bandarísku leyniþjónustunnar CIA.

Nefndin segir ekkert benda til þess að Bretar hafi átt beinan þátt í leynilegum fangaflutningum. Greinilegt sé hins vegar að breskar leyniþjónustuupplýsingar hafi verið misnotaðar þar sem skilyrði sem sett voru fyrir miðlun upplýsinganna hafi verið virt að vettugi. Nefndin gagnrýnir einnig bresk yfirvöl fyrir ófullnægjandi skráningu upplýsinga.

M.a. kemur fram í skýrslu nefndarinnar að breska leyniþjónustan hafi miðlað upplýsingum um tvo breska ríkisborgara sem staddir voru í Gana árið 2002 til bandarísku leyniþjónustunnar og að í kjölfar þess hafi mennirnir verið handsamaðir og fluttir til Afganistans og síðan í herbúðir Bandaríkjahers á Guantanamo þar sem annar þeirra sé enn í haldi. Það hafi þó verið skýrt tekið fram af hálfu bresku leyniþjónustunnar að ekki mætti handtaka mennina á grundvelli þeirra upplýsinga sem hún lét bandarísku leyniþjónustunni í té.

Þá er tekið fram í skýrslunni að Bretar hafi á þessum tíma talið sig geta treyst bandarísku leyniþjónustunni þar sem hún hafi undantekningalaust virt þau skilyrði sem sett hafi verið fyrir miðlum upplýsinga undanfarin tuttugu ár. Nú liggi hins vegar ljóst fyrir að bandarísk yfirvöld svífist einskis telji þau öryggi Bandaríkjanna í húfi.

Bresk yfirvöld hafa ítrekað í dag að samskipti ríkjanna séu náin og að áframhaldandi samvinna landanna í baráttunni gegn hryðjuverkum sé nauðsynleg.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert