Æðsti stjórnarerindreki Búlgaríu í Líbýu var kallaður til fundar við yfirvöld í Tripoli í Líbýu í dag en á fundinum var formlegum mótmælum Líbýumanna vegna náðunar palestínsks læknis og fimm búlgarskra hjúkrunarfræðinga komið á framfæri við hann.
Í mótmælabréfi sem stjórnareindrekanum var afhent kemur fram að yfirvöld í Tripoli líti svo á að búlgörsk yfirvöld hafi bæði rofið framsalsamning ríkjanna frá árinu 1984 og sérstakt samkomulag sem gert var varðandi framsal hjúkrunarfólksins á mánudag.
Georgy Parvanov, forseti Búlgaríu, náðaði fólkið við komu þess til Búlgaríu á þriðjudag en áður höfðu dauðadómar yfir þeim verið mildaðir í Líbýu og þeim breytt í lífstíðardóma. Þá hafði fólkið verið framselt til Búlgaríu á þeirri forsendu að það myndi afplána dóma sína þar.
Fólkið hafði setið í fangelsi í Líbýu í átta og hálft ár en það var sakað um að hafa sýkt hundruð barna í landinu af HIV veirunni. Fólkið heldur fram sakleysi sínu og segist upphaflega hafa verið pyntað til að játa glæpina á sig. Þá segja vestrænir sérfræðingar að hluti barnanna hafi að öllum líkindum smitast áður en fólkið kom til starfa í landinu og að sennilegast sé að rekja megi smitið til slæms aðbúnaðar á sjúkrahúsinu þar sem fólkið starfaði.