Orðalag Darfur-ályktunar þynnt út

Omar Hassan alBashir, forseti Súdans, heimsótti nýverið Darfur-héraðið. Hér sést …
Omar Hassan alBashir, forseti Súdans, heimsótti nýverið Darfur-héraðið. Hér sést hann ávarpa landsmenn sína í Darfur á mánudag. Reuters

Búið er að þynna út uppkast að ályktun Sameinuðu þjóðanna sem heimilar það að sameiginlegu friðargæsluliði SÞ og Afríkubandalagsins verði komið fyrir í Darfur-héraði Súdans.

Í nýja textanum er ekki lengur talað um að refsiaðgerðum verði beitt ef Súdan verði ekki við þeim kröfum sem fram koma í ályktuninni, segir á vef BBC.

Bretar og Frakkar hafa dreift uppkastinu fyrir fund Öryggisráðs SÞ sem fram fer í dag. Þeir vonast til þess að það muni sefa áhyggjur Afríkuráðsins, en Súdanar halda því enn fram að nýja uppkastið sé „afar ljótt“.

Í ályktuninni er lagt til að sameiginlegt 26.000 manna friðargæslulið, sem samanstendur af her- og lögreglumönnum, muni taka við af friðargæslusveit Afríkubandalagsins í lok þessa árs.

Fámennt friðargæslulið Afríkusambandsins hefur ekki náð tökum á ofbeldinu í Darfur, en að sögn SÞ hafa yfir 200.000 dáið þar og yfir tvær milljónir manna eru nú heimilislausir.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert