Aukin harka virðist nú vera að hlaupa í baráttu öldungadeildarþingmannanna Barack Obama og Hillary Clinton um að verða forsetaframbjóðandi bandarískra demókrata. Þingmennirnir hafa látið hörð orð falla hvor um annan í kjölfar netkappræða þeirra á CNN og YouTube á mánudagskvöld. Sakar Clinton Obama um reynsluleysi en Obama Clinton um tvöfeldni. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.
Í kappræðunum voru þau spurð að því hvort þau væru reiðubúin til að hitta leiðtoga Írans, Sýrlands, Kúbu, Venesúela og Norður-Kóreu og svaraði Obama því til að hann teldi það hneisu að bandarískir leiðtogar neituðu að ræða við leiðtoga þessara þjóða. „Sú hugmynd, sem verið hefur grundvallarregla þessarar ríkisstjórnar, að það felist einhvers konar refsing í því að tala ekki við þá er fáránleg,” sagði hann. Þá vísaði hann til forsetanna John F. Kennedy og Ronald Reagans sem áttu samskipti við leiðtoga Sóvétríkjanna og sagði að sem forseti myndi hann leita eftir viðræðum við yfirvöld í Íran og Sýrlandi þar sem þau hafi skyldum að gegna í Írak.
Clinton sagðist hins vegar ekki sjá fyrir að hún muni eiga fundi með leiðtogum umrædda ríkja fyrsta ár sitt á forsetastóli. „Við viljum ekki að forseti okkar hitti Fidel Castro og Hugo Chavez og forseta Norður-Kóreu, Írans og Sýrlands, fyrr en við vitum betur hver stefna þeirra er,” sagði hún. „Ég vil ekki láta nota mig í áróðurstilgangi.
Clinton segir síðan í viðtali sem birt er í Quad-City Times sem gefið er út í Iowa að hún telji það óábyrgt og hreint út sagt einfeldningslegt að skuldbinda sig til viðræðna við Chavez og Castro og að hún hafi heimildir fyrir því að Obama iðrist þess hvernig hann svaraði umræddri spurningu.
Í viðtali við sama blað segir Obama hinsvegar: "Ég sagði ekki að þessir menn væru væntanlegir í kaffi einhvern daginn.” Þá segir hann að sé eitthvað óábyrgt og einfeldningslegt þá sé það það að veita George W. Bush Bandaríkjaforseta umboð til að senda 160.000 unga Bandaríkjamenn til Íraks án þess að hafa nokkra hugmynd um það hvernig eigi að ná þeim þaðan aftur.