Bandaríkjastjórn hafnaði í dag viðræðum við Raul Castro, sem fer með embætti forseta á Kúbu í veikindaleyfi Fídel Castro, en Raul Castro lýsti yfir áhuga á að ræða við bandarísk stjórnvöld í dag í þeim tilgangi að leysa hálfrar aldar ósætti þjóðanna.
Sagði Sean McCormack, talsmaður Bandaríkjastjórnar að Raul Castro væri nær að tala við kúbönsku þjóðina. Sagðist hann vera sannfærður um að ef kúbanska þjóðin gæti þá myndi hún vilja velja sér sjálf leiðtoga. Það sé hins vegar ekki raunin á Kúbu í dag. Sagði McCormack að Bandaríkjastjórn biði í eftirvæntingu eftir þeim degi sem kúbanska þjóðin fær það frelsi að ræða á opinskáan hátt.
Raul Castro sagði í ræðu á þjóðhátíðardegi Kúbu í dag að ef Bandaríkjastjórn gæti í eitt skipti fyrir öll sett til hliðar oflæti sitt og hegðað sér eins og siðmenntað fólk þá væri hann reiðubúinn til viðræðna.
45 ár eru liðin frá því að Bandaríkin settu viðskiptabann á Kúbu en ekkert stjórnmálasamband er á milli ríkjanna.