Stjórnvöld í Jórdaníu óska eftir hjálp alþjóðasamfélagsins vegna hundruð þúsunda flóttamanna frá Írak sem eru í Jórdaníu. Talið er að yfir tvær milljónir Íraka hafi flúið ofbeldið í heimalandinu. Þetta kom fram á ráðstefnu sem hófst í dag um málefni flóttamanna frá Írak.
Um 750 þúsund flóttamenn frá Írak hafi komið til Jórdaníu frá innrás bandamanna inn í landið í mars 2003. Hefur þetta haft gífurleg áhrif á innviði Jórdaníu og nemur kostnaðurinn vegna þessa um einum milljarði dala árlega. Þetta kom fram í máli innanríkisráðherra Jórdaníu, Mukheimar Abu-Jamous, á ráðstefnunni.
Segir hann að öryggismál Jórdaníu, án þess að tilgreina frekar hvað hann átti við, séu í uppnámi vegna fólksstraumsins. Upp hafa komið vandamál á milli ólíkra hópa flóttamanna frá Írak í Jórdaníu sem eru bæði súnní-múslimar og sjíta-múslimar. Eins er mikið um glæpi meðal flóttamanna frá Írak þar sem fæstir þeirra hafa fengið vinnu í Jórdaníu og fátæktin því gífurleg meðal þeirra.
Abu-Jamous hvatti alþjóðasamfélagið til að grípa strax inn og veita jórdönsku þjóðinni aðstoð.
Auk Jórdaníu hafa Sýrlendingar tekið á móti 1,5 milljón flóttamanna frá Írak. Egyptar og Líbanar hafa tekið á móti rúmlega tvö hundruð þúsund flóttamönnum hvort land. Stjórnvöld í Bandaríkjunum hafa ákveðið að taka við sjö þúsund flóttamönnum frá Írak fyrir septemberlok en mikill þrýstingur er á bandarísk stjórnvöld um að taka við flóttamönnum frá Írak.
Samkvæmt upplýsingum frá flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna er talið að um fimmtíu þúsund Írakar flýi landið í hverjum mánuði, flestir þeirra til nágrannalandanna Jórdaníu og Sýrlands. Hafa ríkin tvö ítrekað varað við áhrifum flóttamannastraumsins á innviði landanna meðal annars heilbrigðisþjónustu og menntakerfi. Eins hefur verðbólga farið upp úr öllu valdi og fasteignaverð.
Talið er að um tvær milljónir Íraka til viðbótar hafi flúið heimili sín í Írak til annarra svæða í landinu, þar á meðal inn á svæði Kúrda í norðurhluta landsins.