Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti segir að Vesturlandabúar ættu að treysta Arabaríkjum til að þróa kjarnorkutækni til nota í friðsamlegum tilgangi. Að öðrum kosti geti vantraust þeirra leitt til stríðs á milli þessara tveggja menningarheima. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.
Sarkozy segir að það viðhorf að Arabaríkin séu ekki nógu skynsöm til að nota kjarnorku í friðsamlegum tilgangi stuðli að langvarandi óvild á milli menningarheimanna. „Kjarnorka er orka framtíðarinnar. Veitum við ekki ríkjum sunnan Miðjarðarhafs aðgang að orku framtíðarinnar hvernig munu þau þá þróast?” spurði Sarkozy á blaðamannafundi í Tripoli í Líbýu í gær. „Og þróist þau ekki hvernig berjumst við þá gegn hryðjuverkum og öfgahyggju?"
Frakkar samþykktu í gær að eiga samvinnu við Líbýumenn um þróun kjarnorkutækni til að knýja hreinsun salts úr sjávarvatni þannig að það verði hæft til drykkjar. Sarkozy segir þó enga beina tengingu vera á milli samningsins og framsals búlgarsks hjúkrunarfólks frá Líbýu fyrr í vikunni en eiginkona hans tók þátt í samningaviðræðum um framsal fólksins. Framsal fólksins hafi þó gert heimsókn hans til landsins mögulega.