Bandaríski berklasjúklingurinn Andrew Speaker, sem olli miklu uppnámi er hann ferðaðist flugleiðis á milli landa í trássi við bann bandarískra heilbrigðisyfirvalda, var útskrifaður af sjúkrahúsi í dag. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.
Speaker gekkst undir skurðaðgerð þann 17. júlí og var þá hluti annars lunga hans fjarlægt. Læknar við National Jewish Medical and Research sjúkrahúsið í Denver telja hann ekki alveg lausan við sýkinguna en segja aðgerðina og lyfjagjöf hafa fjarlægt öll einkenni sjúkdómsins. Þá segja þeir enga smithættu stafa af Speaker sem flaug með sjúkraflugvél til Georgíuríkis eftir að hann var útskrifaður af sjúkrahúsinu.
Speaker, sem er 31 árs, segir að læknar sóttvarnarstofnunar Bandaríkjanna hafi vitað að hann væri berklasmitaður áður en hann flaug til Evrópu og að þeir hafi sagt að þeir kysu að hann héldu kyrru fyrir. Þeir gætu hins vegar ekki bannað honum að ferðast.
Eftir að nánari greining á sýkingu hans lá fyrir var honum hins vegar skipað að fara á næsta sjúkrahús þar sem hann var staddur í Evrópu og hann settur á bannlista yfir flugfarþega til Bandaríkjanna. Hann óhlýðnaðist hins vegar fyrirmælunum og flaug til Kanada þaðan sem hann ók yfir landamærin til Bandaríkjanna. Eftir komuna þangað var hann handtekinn og settur í einangrun en hann er fyrstri einstaklingurinn sem skikkaður er í einangrun af alríkisyfirvöldum í landinu frá árinu 1963.