Öll menntun skilar sér á vinnumarkaði

Það skiptir litlu sem engu máli hvaða menntun maður hefur eða hvernig einkunnir maður fær bara ef maður menntar sig. Christian Kurt Nielsen, forstjóri Mercuri Urval stærstu ráðningarþjónustu Danmerkur, segir að næstum hvaða framhaldsmenntun sem er geti skilað fólki góðri vinnu. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.

“Framhaldsmenntun er trygging fyrir því að maður hafi tileinkað sér ákveðna eiginleika á borð við skipulagshæfni, yfirsýn og hæfni til upplýsingaöflunar,” segir hann. Þá segir hann að séu sérhæfð störf undanskilin ráði almenn starfsreynsla og persónuleiki mun meiru um það hversu góð störf fólk fái en menntun þess.

Nielsen segist því ráðleggja ungu fólki að læra það sem það langi mest til og að klára námið, jafnvel þótt það skipti um skoðun varðandi það hvað það vilji starfa við. Bara það að hafa lokið einhvers konar framhaldsnámi sé lykill að árangri á vinnumarkaði sem sé jafnvel meira traustvekjandi en það að hafa skipt um fag.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert