Reglur settar um áfengisneyslu geimfara NASA

Bandaríska geimvísindastofnunin NASA lýsti því yfir í dag að gripið verði til tafarlausra aðgerða innan stofnunarinnar til að koma í veg fyrir að geimfarar neyti áfengis áður en þeir halda af stað í geimferðir á vegum stofnunarinnar. Í skýrslu nefndar sem falið var að fara yfir heilsugæslu og eftirlit með geimförum kemur fram að í a.m.k. tveimur tilfellum hafi geimfarar verið mjög drukknir er þeir fóru um borð í geimflaug fyrir geimskot. Þetta kemur fram á fréttavef CNN.

Shana Dale, aðstoðarframkvæmdastjóri stofnunarinnar, segir stofnunina líta málið mjög alvarlegum augum og að gripið verði til aðgerða vegna málsins þegar í stað. Þá segir hún að geimförum verði hér eftir bannað að neyta áfengis í tólf tíma fyrir geimskot og að málið hafi þegar verið rætt við þá geimfara sem eigi að leggja upp í geimferð eftir tvo daga.

Sérstakri nefnd var falið að fara yfir heilsugæslu og eftirlit með geimförum stofnunarinnar eftir að geimfarinn Lisa Nowak var handtekin í febrúar sökuð um að hafa ráðist á keppinaut sinn í ástum.

Í skýrslu nefndarinnar kemur fram að geimförum hafi hingað til verið heimilt að neyta áfengis í húsnæði NASA á meðan beðið væri eftir að geimskot færi fram. Þá er mælt með því í skýrslu nefndarinnar að settar verði siðareglur geimfara.

Geimfarar bregða á leik í geimferjunni Endeavour þann 17. júlí …
Geimfarar bregða á leik í geimferjunni Endeavour þann 17. júlí síðastliðinn en ferjan á að halda út í geim þann 7. ágúst. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert