Mikhaíl Gorbatsjov, fyrrverandi forseti Sovétríkjanna, gagnrýndi í gær Bandaríkin, og einkum forseta þeirra, George W. Bush, fyrir að ala á lögleysu í heiminum með heimsveldistilburðum. Sagði Gorbatsjov að frá lokum kalda stríðsins hefðu bandarísk stjórnvöld leitast við að byggja upp heimsveldi, en skorti skilning á breyttri heimsmynd.
"Hugmyndin um nýtt heimsveldi, sem hefði leiðtogahlutverki að gegna, kviknaði hjá Bandaríkjamönnum, en hvað fylgdi í kjölfarið?" spurði Gorbatsjov á fréttamannafundi í Moskvu.
"Það sem fylgt hefur í kjölfarið eru einhliða aðgerðir .., styrjaldir .., öryggisráð SÞ er virt að vettugi, alþjóðalög eru virt að vettugi, vilji almennings, jafnvel bandarísks almennings, er virtur að vettugi," sagði Gorbatsjov.