George W. Bush Bandaríkjaforseti og Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands, hafa heitið því að efla tengsl þjóðanna, sem byggi á þeim grunngildum sem bæði löndin deila með sér.
Þeir hittust á fundi í Camp David í dag, en þetta er fyrsti fundur þeirra Brown og Bush frá því Brown tók við forsætisráðuneytinu af Tony Blair fyrir um mánuði síðan.
Á fundinum var rætt um ástandið í Írak, Afganistan, Darfur auk þess sem rætt var um heimsviðskipti.
Brown fordæmdi hryðjuverk og sagði að slíkt athæfi væri glæpur en ekki málstaður. Bush sagði að Bretar gerðu sér fulla grein fyrir mikilvægi þess að árangur náist í Írak. „Mistök í Írak hefðu í för með sér hræðilegar afleiðingar fyrir Bandaríkin, og forsætisráðherrann skilur það,“ sagði Bush.
Bretar studdu innrás Bandaríkjamanna í Írak árið 2003, en nú hyggjast bresk stjórnvöld ætla að fækka í herliði sínu í Írak og draga úr hernaðaraðgerðum sínum á komandi ári.
Fréttavefur BBC greindi frá þessu.