Yfirvöld í Stokkhólmi, höfuðborg Svíþjóðar, hafa tekið upp veggjald sem lagt verður á ökutæki í þeim tilgangi að draga úr notkun þeirra auk þess sem stefnt sé að því að draga úr hávaða- og loftmengun í borginni.
Borgarbúar samþykktu að lagður yrði varanlegur tollur, sem nemur um 10-20 sænskum krónum, að loknu reynslutímabili og allsherjaratkvæðagreiðslu um málið sem fram fór á síðasta ári.
Þá ætla yfirvöld að nýta það fé sem fæst með veggjaldinu til að bæta samgöngur í borginni.
Þegar er búið að taka upp svipað fyrirkomulag í borgum á við London, Singapore, Ósló og Róm.
Samkvæmt Stokkhólmsleiðinni þá er ökumönnum gert að greiða gjald í hvert sinn sem þeir aka inn og út úr borgini á milli kl. 6:30 til 18:29 alla virka daga.
Strætisvagnar og ökutæki sem fatlaðir einstaklingar aka eru undanþegnir þessum skatti. Þá er þetta frádráttarbært frá skatti fyrir fyrirtæki í borginni.
Ekki hefur reynt mjög á nýja fyrirkomulagið enn sem komið er þar sem meirihluti borgarbúa, sem eru alls um 760.000, er enn í sumarfríi. Þrátt fyrir að íbúarnir séu ekki fleiri eru umferðaröngþveiti tíð í Stokkhólmi.