Stjórnvöld í Myanmar hafa bannað auglýsingar á erlendum tungumálum öðrum en ensku í landinu eftir að þarlent blað birti auglýsingu frá dönskum listamönnum, sem innihélt dulda yfirlýsingu um að leiðtogi herforingjastjórnar landsins væri morðingi.
Eftirlitsráð með fjölmiðlum tilkynnti um bannið í vikunni eftir að hafa átt fund með blaðaútgefendum. AFP fréttastofan hefur eftir einum blaðaútgefanda, að þeim hafi verið sagt að taka ekki við auglýsingum á öðrum tungumálum en tungumáli landsins og ensku.
Tímaritið Myanmar Times birti í síðustu viku auglýsingu, sem virtist vera frá norrænni ferðaskrifstofu þar sem ferðaþjónustu á Myanmar var sungið lof. Í auglýsingunni var m.a. ljóð um þá nautn að ferðast og ef fyrstu stöfunum í hverri ljóðlínu var raðað saman kom út enska orðið „freedom" eða frelsi.
Þá var nafn ferðaskrifstofunnar sagt vera Ewhsnahtrellik. Ef það er lesið aftur á bak kemur út: Killer Than Shwe en Shwe er leiðtogi herforingjastjórnar landsins.
Dönsku listamennirnir Pia Bertelsen og Jan Egesborg stóðu á bak við auglýsinguna. Þau tengjast samtökunum Surrend, sem beittu svipuðum brögðum í Írak og í fyrrum Júgóslavíu til að sýna fram á, að hægt væri að leika á jafnvel hörðustu ritskoðara.