Hryðjuverkasöngleikur veldur fjaðrafoki

Eitt laga söngleiksins heitir „Ég vil vera eins og Osama“ …
Eitt laga söngleiksins heitir „Ég vil vera eins og Osama“ og er þá verið að vísa í Osama bin Laden, leiðtoga al-Qaeda.

Söngleikur í gamansömum dúr sem fjallar um íslamska hryðjuverkamenn og Osama bin Laden, leiðtoga al-Qaeda hryðjuverkasamtakanna, hefur valdið miklu fjaðrafoki í Bretlandi. Margir hafa kallað þetta smekkleysu og mótmælt því að söngleikurinn verði settur upp.

Í söngleiknum, sem heitir á ensku „Jihad: The Musical“ (sem mætti útleggja á íslensku sem „Söngleikurinn heilagt stríð), má heyra lög á borð við „Ég vil vera eins og Osama“. Laginu er lýst sem „glannalegri þeysireið í gegnum hinn undarlega heim alþjóðlegra hryðjuverka“. Verkið á að vera sett upp á Fringe listahátíðinni sem fram fer í Edinborg í Skotalandi nú í ágúst.

Bænarskrá hefur hinsvegar verið lögð fram á vefsíðu Gordon Brown, forsætisráðherra Bretlands. „Við undirrituð leggjum það til við forsætisráðherrann að fordæma smekklausa lýsingu á hryðjuverkum og fórnarlömbum þeirra í „Jihad The Musical,“ segir í bænaskránni.

Söngleikurinn, sem Silk Circle Production setur upp, var heimsfrumsýndur í þessari viku á Fringe-hátíðinni í Edinborg. Hátíðin er þekkt fyrir háðsádeiluverk og framúrstefnulegar sýningar.

Í verkinu er fjallað um ungan afganskan bónda sem dreymir um að verða frægur blómabóndi sem flytur valmúa út til Vesturlandanna. Það breytist hinsvegar skjótt þegar hryðjuverkahópur ætlar sér að sprengja vestræn skotmörk. Þá er sérstaklega minnst á eitt ónefnt kennileiti sem er að auki mjög þekkt. Undir lok sögunnar verður söguhetjan að velja hvorumegin hann vilji vera, þ.e. með hryðjuverkamönnunum eða á móti þeim.

Aðstandendur sýningarinnar segja að þeir hafi aldrei ætlað að móðga neinn. Hugmyndin hafi aðeins verið sú að setja upp gamansöngleik.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert