Margir Norðmenn eru í rauninni Svíar

Á Akerbryggju í Ósló.
Á Akerbryggju í Ósló. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Sautján ára norskri stúlku, Malin Aass, brá heldur í brún þegar hún ætlaði að endurnýja vegabréfið sitt en fékk neitun á þeirri forsendu að hún væri ekki norskur ríkisborgari heldur sænskur. Aftenposten greinir frá því að í viku hverri komi upp nokkur slík mál, og „Norðmenn sem eru í rauninni Svíar“ leiti í öngum sínum aðstoðar sænska sendiráðsins.

Malin er borin og barnfædd í Noregi og hefur haft norskt vegabréf alla ævi. Í sumar ætlaði hún að fara í ferðalag til Frakklands og hugðist endurnýja vegabréfið fyrir ferðina. „Það var mjög undarlegt að fá þær fréttir að ég væri ekki norsk,“ sagði Malin við Aftenposten.no.

Móðir Malin er sænsk, en faðir hennar norskur, og Malin var áður sænskur ríkisborgari. En þar sem hún hefur átt heima hjá föður sínum í Noregi frá því hún fæddist sótti hún um norskt vegabréf og fékk það útgefið og engan í fjölskyldunni grunaði að hún væri í rauninni ekki norskur ríkisborgari.

Talsmaður sænska sendiráðsins í Ósló tjáir Aftenposten.no að Svíarnir sem halda sig vera Norðmenn hafi í langflestum tilvikum haft norskt vegabréf og margir verið búsettir alla ævi í Noregi og aldrei hvarflað annað að þeim en að þeir væru norskir ríkisborgarar.

Framkvæmdastjóri vegabréfadeildar Óslóarlögreglunnar telur að illa skipulögð verkferli fyrri ára séu orsökin fyrir þessari ringulreið. Nýir verkferlar hafi verið teknir upp fyrir tveim árum, og eiga þeir að koma í veg fyrir sænskir ríkisborgarar fái útgefin norsk vegabréf.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert