Þeir segja að það sé erfitt að kenna gömlum hundum að sitja en móðir 61s árs gamals manns á Sikiley á Ítalíu er hinsvegar ekki á því. Hún tók af honum húslyklana, hætti að gefa honum vasapeninga og fór með hann beinustu leið á lögreglustöðina þar sem hann hafði verið úti fram yfir háttatímann.
Móðirin var orðin dauðleið á látalátum sonar síns, sem er kominn á eftirlaun í borginni Caltagirone sem er á miðri Sikiley. Sem fyrr segir fór hún með soninn rakleiðis til lögreglunnar og bað lögreglumennina um að fá „aulabárðinn“ son sinn til þess að halda sér á mottunni. Frá þessu greindi La Sicilia, eitt af helstu dagblöðum Sikileyjar í dag.
Sonurinn sagðist hinsvegar vera ósáttur við það hvað mamma hans gæfi honum lítinn vasapening og að hún væri léleg eldabuska.
„Sonur minn virðir mig ekki. Hann segir mér ekki hvert hann sé að fara út á kvöldin og kemur seint heim,“ er haft eftir gömlu konunni.
„Hann er aldrei ánægður með matinn sem ég bý til og er alltaf að kvarta og kveina. Þetta getur ekki haldið svona áfram.“
Lögreglan náði hinsvegar að sætta mæðginin sem fóru á endanum saman heim. Sonurinn fékk húslyklana sína tilbaka og móðirin lét hann hafa vasapening.
Þess má geta að meirihluti ítalskra karlmanna búa heima hjá mæðrum sínum fram á fertugsaldur, og njóta þess að láta mömmu þvo og strauja þvott og elda fyrir sig.