George W. Bush, Bandaríkjaforseti, hefur boðið leiðtogum helstu iðnríkja heims til ráðstefnu um umhverfismál, sem halda á í Washington 27. og 28. september í haust. Þar á að setja langtímamarkmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda.
Bush lagði til í ræðu í maí að slík ráðstefna yrði haldin og í gær sendi hann leiðtogum Ástralíu, Brasilíu, Indlands, Indónesíu, Japans, Mexíkó, Rússlands, Suður-Afríku og Suður-Kóreu bréf og bauð þeim að senda fulltrúa á ráðstefnuna. Þá bauð Bush einnig Evrópusambandinu, Bretlandi, Frakklandi, Ítalíu, Þýskalandi og Sameinuðu þjóðunum að senda fulltrúa.
Condoleezza Rice, utanríkisráðherra, mun stýra ráðstefnunni en Bush mun flytja ávarp.