Rússneskur togari, Olshana, strandaði í gærkvöldi í Tangafirði í Færeyjum og sökk í morgun eftir að árangurslausar tilraunir höfðu verið gerðar til að ná honum á flot. Að sögn fréttavefjar blaðsins Sosialurin liggur flak togarans nú á 70 metra dýpi. Togarinn var nýbúinn að taka olíu í Kollafirði og var á leið til fiskiveiða þegar hann strandaði.
Togarinn strandaði skömmu fyrir klukkan 20 í gærkvöldi og komu rifur á skrokkinn. Reynt var að draga skipið á flot í nótt og voru fimm skip við björgunaraðgerðirnar, sem mistókust.
Um 270 tonn af gasolíu voru í togaranum þegar hann sökk. Talið er að minnsta kosti 15 tonn af olíu hafi lekið úr tanki, sem rifa kom á og eru olíuflekkir á sjónum. Rekur flekkina inn á Skálafjörð, Kaldbaksfjörð, Sundalagið og á Kollafjörð.
34 manna áhöfn var um borð í rússneska togaranum þgear hann strandaði. Þeim var bjargað yfir í netabátinn Thor sem kom fljótlega á strandstaðinn.