Tuttugu og fimm ára sonur Idi Amin, fyrrverandi einræðisherra í Úganda, hefur verið dæmdur í fimm ára fangelsi í Bretlandi fyrir aðild að árás gengis á 18 ára mann sem lét lífið. Var hann stunginn 20 sinnum með hnífi, barinn með hafnaboltakylfum, glerflöskum og hömrum, hann kýldur og sparkað í hann. Árásin náðist á mynd.
Sonur Amins heitir Faisal Wangita. Hann var í 40 manna gengi sem réðist á Mahir Osman á fjölfarinni götu í London í janúar í fyrra. Alls hafa þrettán manns hlotið dóma vegna árásarinnar, þ.á m. þrír sem fundnir voru sekir um morð.
Wangita var sýknaður af morðákæru, en fundinn sekur um samsæri um líkamsárás og ofbeldi. Hann mun hafa sparkað í Osman er hann lá í götunni. Lögregla segir Osman hafa látist á innan við mínútu.
Dómurinn yfir Wangita var kveðinn upp í apríl, en ekki var greint frá honum fyrr en í dag vegna þess að dómarinn bannaði fréttaflutning af málinu uns öðrum réttarhöldum vegna málsins væri lokið. Banninu var aflétt í dag.
Kviðdómi í máli Wangita var ekki sagt að hann væri sonur Amins fyrr en dómurinn hafði kveðið upp úrskurð.
Amin settist að í Sádí-Arabíu eftir að honum var steypt af stóli í Úganda 1979, og lést þar 2003. Hann var tók völdin í Úganda í byltingu 1971, en stjórnartíð hans einkenndist af mannréttindabrotum og aftökum án dóms og laga. Ekki er ljóst hversu margir voru teknir af lífi í stjórnartíð hans, en áætlanir þar um hafa verið á bilinu 50 þúsund til hálf milljón.
Samkvæmt opinberum skjölum var Wangita fæddur í Úganda, en hann sagðist fæddur í Sádí-Arabíu. Amin eignaðist alls 40 börn, samkvæmt opinberum gögnum, með sjö eiginkonum. Ekkert er vitað um móður Wangitas.