Kínversk stjórnvöld hafa ákveðið að milda áróður fyrir einsbarnsstefnunni sem hefur verið í gildi þar í landi frá árinu 1979 til að reyna að draga úr fólksfjölgun. Hefur verið gefinn út listi yfir 190 slagorð, sem þykja viðeigandi en jafnframt verður bannað nota slagorð á borð við: Eitt barn í viðbót þýðir einum legsteininum fleira.
Fram kemur á fréttavef BBC, að kínversk stjórnvöld telji að hryssingslegt orðalag sumra slagorðanna skaði ímynd stefnunnar. Kínverska fréttastofan Xinhua segir að ákveðið hafi verið að milda yfirbragð stefnunnar til að auka skilning á henni.
Xinhua nefnir nokkur dæmi um óviðunandi slagorð, sem notuð hafa verið í sveitum landsins. Þar á meðal eru slagorð á borð við: Alið upp færri börn en fleiri grísi.
Sem dæmi um viðunandi slagorð eru nefnd: Móðir jörð er of þreytt til að fæða fleiri börn, og: Bæði drengir og stúlkur eru hjörtu foreldra.
Fjölskyldustefna Kínverja gerir ráð fyrir því, að fólk sem býr í landbúnaðarhéröðum landsins eigi aðeins eitt barn þótt mögulegt sé að fá að eignast tvö börn ef fyrsta barnið er stúlka.
Gagnrýnendur segja að þessi stefna hafi valdið því að fóstureyðingum hafi stórfjölgað og hlutfall kynja hafi raskast verulega vegna þess að hjón vilja frekar eignast drengi.
Um 1,3 milljarðar manna bjuggu í Kína árið 2005.