15 heimilislausir fótboltamenn hurfu í Danmörku

Frá úrslitaleik mótsins á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn þar sem Skotar …
Frá úrslitaleik mótsins á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn þar sem Skotar unnu Pólverja 9:3. AP

Fjórtán Afríkubúar og einn Afgani, sem tóku þátt í heimsbikarkeppni heimilislausra í fótbolta í Danmörku, eru horfnir. Vegabréfsáritun mannanna í Danmörku rann út í dag og verða þeir handteknir og reknir úr landi ef þeir finnast.

Sex leikmenn, fjórir Líberíumenn, einn frá Kamerún og einn frá Búrúndí, mættu ekki á æfingu á fimmtudagsmorgun og eftir úrslitaleik mótsins á laugardag hurfu níu til viðbótar, þar af sex frá Búrúndí, tveir frá Kamerún og einn frá Afganistan.

„Við höfum aldrei lent í þessu áður," sagði Kat Byles, talsmaður mótshaldara. „Þetta er óskemmtileg reynsla. Þetta kemur okkur á óvart því 15 manns er talsverður fjöldi."

Að sögn dönsku lögreglunnar voru nöfn leikmannanna 15 sett á lista yfir horfið fólk en ekki verður gerð sérstök gangskör að því að leita þeirra.

Hugsanlegt er að mennirnir séu þegar farnir úr landi en vegabréfsáritanir þeirra giltu innan Schengensvæðisins.

Um 500 manns tóku þátt í knattspyrnumóti heimilislausra í Danmörku og um helmingur þeirra þurftu vegabréfsáritanir. Eva Kjer Hansen, félagsmálaráðherra Dana, sagði í morgun að ráðuneyti hennar axlaði ábyrgð á því sem gerðist.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert