Hamid Karzai, forseti Afganistan, segir að leit að Osama bin Laden, leiðtoga hryðjuverkasamtakanna al-Qaeda, hafi ekki borið neinn árangur á undanförnum árum. Al-Qaeda hótaði í gær að ráðast á bandarísk sendiráð og diplómata í hefndarskyni fyrir aðgerðir Bandaríkjamanna í Írak og Afganistan.
„Við erum hvorki nær eða fjær því að finna bin Laden. Við erum á sama stað og við vorum fyrir tveimur árum," sagði Karzai í viðtali við bandarísku sjónvarpsstöðina CNN í gærkvöldi.
Karzai kom til Bandaríkjanna um helgina og mun í dag ræða við George W. Bush, forseta, í Camp David.
Karzai segist ekki vita hvar bin Laden heldur sig. „Ég veit þó með vissu, að hann er ekki í Afganistan," sagði hann.
Bandarísk stjórnvöld telja fullvíst, að bin Laden hafi leitað skjóls í Afganistan eða Pakistan þar sem al-Qaeda hefur búið um sig. Í júlí ákváðu bandarísk stjórnvöld að tvöfalda fé, sem lagt hefur verið til höfuðs bin Ladens og nemur það nú 50 milljónum dala.