Dóttir Giulianis styður Obama

Rudy Giuliani.
Rudy Giuliani. Reuters

Sautján ára gömul dóttir Rudolphs Giulianis, fyrrum borgarstjóra New York og núverandi forsetaframbjóðanda repúblikana, vill frekar að Barack Obama, frambjóðandi demókrata, verði forseti en faðir hennar.

Caroline Giuliani, sem verður 18 ára á næsta ári, kom afstöðu sinni á framfæri á netsíðunni Facebook. Þar sagðist hún eiga heima í stuðningshópi Obamas.

Bandaríska tímaritið Slate segir, að Caroline hafi skráð sig úr hópnum eftir að tímaritið sendi henni fyrirspurn um málið.

Giuliani, sem er 63 ára, þykir nú einna líklegastur til að fá útnefningu flokks síns sem forsetaefni. Vitað er að hann er ekki í góðu sambandi við börn sín af fyrra hjónabandi, Caroline og Andrew, sem er 21 árs, og systkinin og þriðja eiginkona Giulianis, Judith Nathan, eiga ekki skap saman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert