Heilbrigðisyfirvöld í Bretland hafa grunsemdir um að tvö tilvik gin- og klaufaveiki í Surrey hafi verið af manna völdum. Segja þau mjög líklegt að vírusinn hafi komið frá rannsóknarstofu í nágrenninu.
Í skýrslu yfirvalda um málið sem greint var frá nú í kvöld kemur ekki fram hvort vírusinn hafi komið frá ríkisrekinni rannsóknarstofu í nágrenninu eða einkarekna bóluefnafyrirtækinu Merial, sem er að finna á sömu lóð.
Bóndinn á seinna býlinu þar sem vírusinn fannst segir flætt hafa upp úr skólplögn, sem liggur í gegnum akur sem hann beitti nautgripum sínum. Það þykir styrkja grunsemdir um að um smit frá annarri hvorri rannsóknarstofunni sé að ræða.