Hillary Clinton styrkir stöðu sína

Hillary Clinton og Barack Obama í nýlegum sjónvarpskappræðum.
Hillary Clinton og Barack Obama í nýlegum sjónvarpskappræðum. Reuters

Hillary Clinton hefur styrkt stöðu sína umtalsvert í baráttunni við Barack Obama um útnefningu sem forsetaefni Demókrataflokksins í Bandaríkjunum. Samkvæmt nýrri könnun, sem Gallup gerði fyrir blaðið USA Today segjast 48% vilja að Clinton verði forsetaefni og hefur fylgi við hana aukist um 8 prósentur frá samskonar könnun fyrir þremur vikum.

Fylgi við Obama mælist 26% og hefur minnkað um 2 prósentur. Þriðji er John Edwards með 12% fylgi.

Könnunin var gerð 3.-5. ágúst eftir að þau Clinton og Obama skiptust á skoðunum um utanríkismál. Þátttakendur í könnuninni töldu m.a. að Clinton væri mun hæfari til að takast á við alþjóðlega hryðjuverkastarfsemi og að stýra bandaríska heraflanum en Obama.

Meðal repúblikana nýtur Rudy Giuliani mests stuðnings eins og undanfarna mánuði en fylgi við hann var 33%. Í öðru sæti er sjónvarpsleikarinn Fred Thompson með 21% en hann hefur ekki enn lýst því formlega yfir að hann gefi kost á sér. Þriðji er John McCain með 16% fylgi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert