Karlar ræði „karlréttindamál“

Frá Ósló, höfuðborg Noregs.
Frá Ósló, höfuðborg Noregs. mbl.is

Karita Bekkemellem, ráðherra málefna barna og jafnréttis í Noregi, hefur skipað 32 manna nefnd - „Karlanefndina“ - sem ætlað er að koma af stað almennri umræðu um réttindi karla í t.d. heilbrigðismálum, menntamálum og í hjónaskilnuðum. Í nefndinni sitja menn af ýmsum toga úr mörgum atvinnugreinum.

Frá þessu greinir fréttavefur Aftenposten.

Nefndin kom saman á sportklúbbnum Bohemen í miðborg Óslóar í gærkvöldi, þar sem Bekkemellem kynnti nefndarmenn fyrir fjölmiðlum. Hún sagði að karlar sætu orðið á hakanum í menntakerfinu, fengju sjaldnast forræði yfir börnum sínum við skilnað og ættu við aðra sjúkdóma að etja en konur.

Karlanefndinni er ætlað að ræða þessi málefni og veita stjórnvöldum ráðgjöf við ritun hvítbókar [stefnuskrár] um karla og jafnrétti, sem koma á út næsta sumar. En meginverkefni karlanefndarinnar, sagði Bekkemellem, er að vekja almenna umræðu um réttindi karla.

„Þetta er gert til að beina athyglinni að réttindaskorti karla. Það er tími til kominn að þeir taki sjálfir þátt í þeirri umræðu. Konur geta ekki séð um hana fyrir þá,“ hefur Aftenposten eftir Bekkemellem.

Í nefndinni eru stjórnmálamenn, listamenn, leiðtogar í opinbera geiranum og einkageiranum og fleiri þekktir einstaklingar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert