Portúgalskt dagblað segir, að lögregla þar í landi telji að breska stúlkan Madeleine McCann, sem hvarf úr hótelíbúð í Algarve 3. maí sl., hafi verið myrt. Rannsóknir hafi leitt í ljós að blóðslóð liggur frá hótelinu.
Lögregla í Portúgal hefur til þessa gert ráð fyrir að Madeleine hafi verið numin á brott úr herberginu þar sem hún svaf á meðan foreldrar hennar voru á nálægum matsölustað. Blaðið Diario de Noticias segir í dag að lögregla hafi undanfarinn mánuð sannfærst um að litla stúlkan hafi í raun verið myrt kvöldið sem hún hvarf.
Blaðið segir einnig, að lögregla í Bretlandi og Portúgal hafi undanfarnar vikur fylgst grannt með ferðum foreldra stúlkunnar, sem hafa ferðast um Evrópu til að vekja athygli á hvarfi dóttur sinnar.