Íbúar í Moskvuborg eru orðnir ýmsu vanir, en nú mega þeir búast við því að jörðin opnist fyrir fótum þeirra. Rússneskt dagblað birtir í dag lista yfir 170 staði á almannafæri þar sem götur borgarinnar séu „ótryggar.“ Er listinn fenginn úr opinberum skjölum um götur, hraðbrautir og torg þar sem jarðföll hafa orðið eða eru yfirvofandi.
Blaðið Komsomolskaya Pravda sagði ennfremur frá þrem tilvikum um síðustu helgi þar sem jarðföll mynduðust í borginni, þ. á m. eitt sjö metra breitt og meters djúpt. Hafa borgaryfirvöld fyrirskipað að leitað verði að svona „svörtum blettum“ í borginni og gert við þá.
Vegfarendum og bílstjórum er ráðlagt að fara varlega á ótryggum stöðum, eða forðast þá hreinlega alveg, segir blaðið.
Síðan Sovétríkin hrundu 1991 hefur Moskva fengið á sig orð fyrir að vera borg lögleysu og leigumorða, og hafa umbætur í löggæslu lítið breytt þeirri ímynd.