Minningarathöfn fór fram í japönsku borginni Nagasaki í dag en 62 ár eru liðin frá því Bandaríkjamenn vörpuðu kjarnorkusprengju á borgina. Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, sagði í ávarpi að hann muni gera allt sem í hans valdi standi til að tryggja að Nagasaki verði síðasta borgin sem verður fyrir kjarnorkuárás.
Talið er að 27 þúsund manns hafi látið lífið samstundis í Nagasaki þegar sprengjan, sem nefnd var Feiti maðurinn, sprakk yfir borginni. Í lok ársins 1945 höfðu 70 þúsund borgarbúar látið lífið af völdum sprengjunnar en um 200 þúsund manns bjuggu í Nagasaki þegar þessir atburðir gerðust. Opinber tala fórnarlamba sprengjunnar nú er 143.124.
Kertum verður fleytt á Tjörninni í Reykjavík og Minjasafnstjörninni á Akureyri í kvöld til minningar um þá sem létu lífið af völdum kjarnorkuárásanna á Hiroshima og Nagasaki.