Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Danmerkur, segir í viðtali við Jyllands-Posten í dag, að Danir eigi að hleypa mun fleiri innflytjendum inn í landið en nú er gert. „Við höfum þörf fyrir margar hendur," segir forsætisráðherrann en mikill skortur er á vinnuafli í Danmörku, einkum iðn- og tæknimenntuðu fólki.
Blaðið segir að Fogh Rasmussen vari við því að hætta sé á að dragi úr framleiðslu og komi niður á velferðarkerfinu ef ekki tekst að útvega fleiri sérhæfða starfsmenn, svo sem iðnaðarmenn, heilbrigðisstarfsmenn og háskólamenntað fólk í upplýsingatækni. Áætlað er að um 30 þúsund útlendingar komi til Danmerkur til að vinna á þessu ári, en þörfin er mun meiri.
Fogh Rasmussen ætlar að efna til pólitískra umræðna um málið í haust þar sem rætt verði um ýmsar lausnir. Þá leggur hann til að dregið verði úr kröfum, sem til þessa hafa verið gerðar við veitingu atvinnu- og landvistarleyfis.