Fullyrt að skotið hafi verið á sænska flugvél yfir Írak

Sænska blaðið Expressen segir frá því í dag að skotið hafi verið á sænska farþegaflugvél, sem var á leið frá Sulaymaniyah í Norður-Írak áleiðis til Stokkhólms aðfaranótt fimmtudags. Hefur blaðið eftir upplýsingafulltrúa sænsku flugmálastjórnarinnar, að áhöfn vélarinnar hafi séð skæran ljósglampa á jörðinni og telji að skotið hafi verið á vélina.

Farþegarnir urðu ekki varir við neitt og flugvélin lenti heilu og höldnu á Arlandaflugvelli í gær. Forsvarsmenn Nordic Airways ætla þó ekki að taka neina áhættu og vilja að farið verði yfir öryggismál á þessu svæði áður en félagið fljúgi þangað aftur. Hefur félagið leitað til sænska utanríkisráðuneytisins um aðstoð.

Áhöfn vélarinnar, sjö manns, fengu áfallahjálp í gær.

Nordic Airways hefur haldið uppi áætlunarflugi milli Arlanda og Sulaymaniyah og flogið einu sinni í viku. Þessum ferðum hefur nú verið frestað um óákveðinn tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert