Hinir frægu klukknahljómar Big Ben í London þögnuðu í morgun þegar viðamikil viðhaldsvinna og hreinsun klukkuturnsins hófst. Mun Ben vera þögull næsta mánuðinn á meðan framkvæmdirnar standa yfir.
Síðustu klukknahljómarnir ómuðu kl. átta að breskum tíma (kl. sjö að íslenskum). Þá sigu verkamenn niður suðurhlið hins 96 metra háa turns sem er við breska þinghúsið. Vísar klukkunnar voru svo færðir þannig að þeir vísuðu á kl. 12.
Vonast er til þess að sjálf klukkan verði farin að ganga aftur síðar í dag þegar búið er að koma fyrir nýjum rafmagnsbúnaði í klukkuturninum. Turnbjöllurnar munu hinsvegar ekki láta í sér heyra næstu sex vikurnar.
Á næsta ári verður 150 ára afmæli Big Ben fagnað. Big Ben er í raun gælunafn turnsins sem heitir í raun The Great Clock. Strangt til tekið á nafnið í raun aðeins við turnbjölluna sem slær á klukkutímafresti, en hún vegur 13,8 tonn.