Þrettán ára gömul egypsk stúlka lést af völdum umskurnar í vikunni. Er þetta annað tilfelli í Egyptalandi í sumar þar sem stúlka lætur lífið af völdum umskurnar en þá er stór hluti ytri kynfæranna skorinn af. Málið hefur verið kært til fylkissaksóknara í Gharbiyahhéraði og læknastofunni, þar sem aðgerðin ver gerð, hefur verið lokað.
Egypsk stjórnvöld hafa bannað sjúkrahúsum að gera aðgerðir af þessu tagi á stúlkum. Umskurn stúlkna er algeng í Egyptalandi og raunar víðar í Afríku.
Faðir stúlkunnar, sem lést í vikunni, sótti á föstudag um dánarvottorð og sagði að dóttir sín hefði látist af eðlilegum orsökum, að því er kemur fram í blaðinu Al-Masry Al-Youm. Faðirinn hefur einnig verið kærður til saksóknara.
Umskurn kvenna felst venjulega í því, að snípurinn og aðrir hlutar kynfæranna eru skornir burtu. Þar sem þessar aðgerðir eru gerðar er talið að þær dragi úr kynhvöt og tryggi heiður kvennanna. Bæði múslimar og kristnir í Egyptalandi láta gera slíkar aðgerðir en þær eru einkum bundnar við Nílardalinn og Afríkuríki suður af Saharaeyðimörkinni. Þá þekkjast þær einnig í Arabaríkjum við Persaflóa, svo sem í Jemen og Óman.
Rannsókn, sem UNICEF gerði árið 2003 leiddi í ljós, að 97% giftra kvenna í Egyptalandi höfðu sætt misþyrmingum af þessu tagi. Nýleg rannsókn heilbrigðisráðuneytis Egyptalands sýndi, að aðeins um helmingur stúlkna á aldrinum 11-18 ára höfðu sætt slíkum misþyrmingum.