Verkmannaflokkurinn í Bretlandi, sem er undir forystu Gordons Brown, hefur nú gott forskot á Íhaldsflokkinn, en það hefur ekki mælst meira frá því Íraksstríðið hófst. Þetta kom fram í nýrri könnun sem var birt í dag.
Brown, sem tók við forsætisráðuneytinu af Tony Blair þann 27. júní sl., hefur átt þátt í því að Verkamannaflokkurinn hefur nú 10 prósenta forystu á Íhaldsflokkinn, að því er fram kemur í könnun sem breska dagblaðið Sunday Times birti í dag.
Ýmsar vangaveltur eru uppi um það að Brown muni nýta tækifærið og flýta kosningum í landinu af þessum völdum.
Sumir stjórnmálaskýrendur segja mögulegt að boðað verði til kosninga síðar á þessu ári eða á því næsta. Margir benda hinsvegar á að það gæti verið skynsamlegra fyrir Brown að flýta sér hægt.
Viðbrögð bresks almennings við því hvernig Brown hefur tekið á gin- og klaufaveikinni og flóðunum í Bretlandi hafa verið jákvæð.
Stuðningur við Verkamannaflokkinn hækkaði um tvær prósentur frá síðasta mánuði og mælist stuðningurinn nú vera 42%. Íhaldsflokkurinn mælist hinsvegar með 32%. Frjálslyndir demókratar, sem er þriðji stærsti flokkurinn, fékk 14%.