Skjal, sem fannst í skjalasafni austur-þýsku öryggislögreglunnar í Magdeburg, færir sönnur á, að þarlendir landamæraverðir fengu beina skipun stjórnvalda um að skjóta á þá, sem reyndu að fara vestur yfir landamærin.
Blaðið Frankfurter Allgemeine fjallar um málið í dag. Umrætt skjal er dagsett 1. október 1973 og þar kemur fram að ráðuneyti ríkisöryggismála, betur þekkt sem Stasi, hafi sagt vörðum að þeir yrðu að stöðva eða útrýma þeim sem reyndu að flýja yfir landamærin.
„Hikið ekki við að nota skotvopn ykkar þegar menn reyna að komast yfir landamærin í fylgd kvenna og barna, sem er aðferð sem svikarar hafa oft notað," segir í skjalinu.
Marianne Birthler, yfirmaður skjalasafnsins, segir við blaðið að skjalið sanni svo ekki verði um villst, að stjórnendur landsins á þessum tíma hafi ætlast til þess, að flóttamenn yrðu drepnir.
„Þetta skjal er svo mikilvægt vegna þess að stjórnmálaleiðtogarnir á þessum tíma neita því enn, að gefin hafi verið fyrirskipun um að skjóta á flóttamenn," segir hún.
Réttað var yfir nokkrum fyrrverandi landamæravörðum eftir að kommúnistastjórnin í Austur-Þýskalandi hrökklaðist frá völdum árið 1990 en flestir hlutu skilorðsbundinn dóm.
Fullyrt er að allt 1245 manns að minnsta kosti hafi látið lífið við að reyna að flýja til Vesturlanda frá Austur-Þýskalandi. Þar af hafi 768 látið lífið eftir 13. ágúst 1960 þegar bygging Berlínarmúrsins hófst en honum var ætlað að stöðva fjöldaflótta til Vestur-Berlínar. Berlínarmúrinn var alls 155 km langur og skipti borginni í tvennt og umkringdi vesturhlutann.