Á fimmta tug barna bjargað í Gvatemala

46 börnum í Gvatemala, sem talið er að hafi verið rænt frá foreldrum sínum, hefur verið bjargað af lögreglu. Talið er að selja hafi átt börnin, sem eru öll yngri en þriggja ára, þau yngstu einungis nokkurra daga gömul, til ólöglegrar ættleiðingar.

Samkvæmt frétt BBC fundust börnin í húsi í Antigua eftir að nágrannar greindu frá því að útlendingar kæmu með börn þangað daglega. Rannsakar lögregla nú hvort börnunum hafi verið rænt eða hvort foreldrar þeirra hafi tekið þátt í athæfinu.

Á síðasta ári ættleiddu Bandaríkjamenn rúmlega fjögur þúsund börn frá Gvatemala. Samkvæmt upplýsingum frá saksóknaraembætti Gvatemala voru sárafá barnanna með skjöl upp á að þau mættu vera í umsjón annarra heldur en foreldra sinna auk þess sem heimild skorti til reksturs ættleiðingarstofu þar sem börnin fundust. Börnin eru enn til húsa þar sem þau fundust en undir eftirliti lögreglu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka