Forstjóri kínverskrar leikfangaverksmiðju, sem framleiddi meðal annars vörur fyrir Sesame Street, framdi sjálfsvíg eftir að leikföng frá verksmiðjunni voru innkölluð í Bandaríkjunum af öryggisástæðum. Þetta kemur fram í kínversku ríkisdagblaði í dag.
Zhang Shuhong, forstjóri Lee Der Industrial Co Ltd, fannst látinn í vöruhúsi verksmiðjunnar í Guangdong héraði á laugardag. Fyrr í mánuðinum afturkallaði Fisher-Price, dótturfélag Mattel leikfangarisans, tæplega eina milljón leikfanga, þar á meðal vinsæl leikföng sem tengdust sjónvarpsþáttunum um Sesame Street og leikföng tengd landkönnuðinum Dóru (Dora the Explorer) úr verslunum í Bandaríkjunum. Voru leikföngin innkölluð vegna ótta um að of mikið magn eiturefna væri í málningu sem notuð var í þau. Mörg leikfanganna voru framleidd af Lee Der.