Flugeldum var skotið á loft yfir Havanaflóa og fimm kúbverskir njósnarar, sem sitja í fangelsi í Bandaríkjunum, sendu Fídel Kastró Kúbuforseta sérstaka afmæliskveðju, en forsetinn fagnar 81s árs afmæli sínu í dag. Ekki er vitað hvar Kastró heldur sig, en hann er að ná sér eftir veikindi.
„Í dag fögnum við enn einu afmæli leiðtoga okkar Jefe Fídel Kastró, sem er 81s árs og mun halda áfram að fagna mörgum fleiri afmælisdögum með Kúbu og heiminum,“ sagði Kúbumaðurinn Rosa Maria Suarez snemma í dag.
Hún, ásamt hundruðum annarra, stóð við sjávarsíðuna í Malecon skömmu eftir miðnætti til að fylgjast með flugeldunum sem var skotið á loft til heiðurs Kastró. Jafnframt markar þetta endalok sumarhátíðarinnar á Kúbu.
„Hann er að fagna með fjölskyldunni sinni heima, en það er þó eins og hann sé með okkur hér,“ sagði námskonan Irane Neskaye, sem fylgdist einnig með flugeldasýningunni.
Fólkið heyrðist hrópa „Lengi lifi Fídel!“ og „Við munum sigra!“ út um glugga í nálægri íbúð í gamla hverfinu á Havana.
Í kvöld verða svo tvær heimildamyndir um skeggjaða byltingamanninn sýndar í kúbverska ríkissjónvarpinu.