Talið er næsta öruggt að yfirvöld í Texas muni í þessum mánuði taka 400. fangann af lífi, þ.e.a.s. síðan dauðarefsingar voru aftur teknar upp í ríkinu. Ekkert annað ríki Bandaríkjanna kemst með tærnar þar sem Texas er með hælana hvað aftökur varðar. Íhaldsleg viðhorf Texas-búa, sem eru mótmælendatrúar, og menningarleg blanda gamla suðursins og villta vestursins eru sögð skýra það hvers vegna svo margir fangar eru teknir að lífi í ríkinu.
„Í Texas eru öll atriði á tæru hvað þetta varðar. Almenningur styður þetta, ríkisstjórinn styður þetta og dómstólarnir styðja þetta,“ segir Richard Dieter, sem er framkvæmdastjóri upplýsingamiðstöðvar um dauðarefsingar.
„Ef eitthvert þessara atriða hikstar þá hægir á ferlinu,“ sagði Dieter. „En þegar allt gengur smurt fyrir sig, líkt og í Texas, þá er mikið um aftökur.“
Alls hafa 398 fangar verið teknir af lífi í Texas frá því ríkið hóf að taka þessa iðju á nýjan leik árið 1982. Sex árum eftir að Hæstiréttur Bandaríkjanna aflétti banni gegn opinberum refsingum. Næst á eftir Texas kemur Virginía, en þar hafa 98 fangar verið teknir af lífi frá því bannið var aflétt. Ríkið kemst því ekki í hálfkvisti við Texas sem hefur skipulagt fimm aftökur í þessum mánuði.
Hver fangi ver að meðaltali 10 árum á dauðadeildinni áður en hann er tekinn af lífi. Það er ekki langt frá landsmeðaltalinu, sem er 11 ár. Það er þó nokkuð ljóst að landsmeðaltalið væri hærra ef Texas væri ekki tekið með í reikninginn.
Fréttavefur Reuters greindi frá þessu.