Karl Rove, einn nánasti ráðgjafi George W. Bush Bandaríkjaforseta, hefur vottað Bush virðingu sína er hann staðfesti að hann muni yfirgefa Hvíta húsið. Rove, sem ætlar að láta af störfum í lok þessa mánaðar, segir að hann sé „afar stoltur“ yfir því að hafa fengið að þjóna Bush og Bandaríkjunum.
Hann heldur því þó fram að það hafi verið rétt ákvörðun hjá sér að hætta, en Rove segir að það sé fjölskyldu sinnar vegna að hann hættir nú.
Hann hefur starfað við hlið Bush frá 1993 og hann er sagður hafa verið maðurinn á bak við kosningasigra Bush í bandarísku forsetakosningunum árið 2000 og 2004. Af þessum sökum er Rove í miklum metum hjá repúblikönum, en að sama skapi formæla demókratar honum fyrir sinn þátt í kosningasigrum Bush.
„Karl Rove ætlar að róa á önnur mið,“ sagði Bush er hann stóð við hlið vinar síns og samstarfsmanns fyrir framan Hvíta húsið. Bush lýsti Rove sem „kærum vini“ sem hann hefði lengi unnið með, bæði fyrir ríki og þjóð.
Rove var klökkur þegar hann sagði að það hefði verið bæði „gleði og heiður“ að fá að starfa í Hvíta húsinu. Hann var auk þess óspar á lofsyrðin í garð Bush, sem hann lýsti sem manni er tekur á málum af röggsemi, manni sem styrkti bandarískt efnahagslíf, bjó til ný störf og kom mikilvægum umbótum í gegn.
„Ég mun innilega sakna vinnunnar minnar hér,“ sagði Rove og bætti því við að ár hans í Hvíta húsinu hafi verið „ánægjuleg“, að því er fram kemur á fréttavef BBC.