Saka alla um að hafa framið stríðsglæpi í Sómalíu

Eþíópískir hermenn eru sakaðir um að hafa sært þennan mann …
Eþíópískir hermenn eru sakaðir um að hafa sært þennan mann sem hér sést fluttur í sjúkrabifreið eftir að hafa orðið fyrir skoti í síðustu viku. AP

Mannréttindavaktin (Human Rights Watch) segir að allar fylkingar hafi framið stríðsglæpi í þeim átökum sem hafa geisað í Sómalíu á þessu ári. Samtökin segja að eþíópískir hermenn hafi framið verstu ódæðisverkin, en hermennirnir styðja stjórnvöld í Sómalíu í baráttunni við uppreisnarmenn.

Fram kemur í skýrslu samtakanna að Eþíópíumenn hafi gert handahófskenndar árásir á saklausa borgara auk þess sem þeir hafa farið ránshendi um sjúkrahús.

Uppreisnarmennirnir hafa hinsvegar skotið flugskeytum á íbúðarbyggðir og tekið saklausa borgara af lífi frá því íslamistarnir voru hraktir frá völdum í desember sl.

Stjórnvöld í Sómalíu og Eþíópíu hafa neitað þessum ásökunum að því er Reuters-fréttastofan greinir frá.

Yfir 1.000 manns létust í hörðustu bardögunum sem geisað hafa í landinu frá 1991, þegar eþíópískir hermenn ásamt stjórnarhermönnum í Sómalíu reyndu að bola uppreisnarmönnum á brott frá Mogadishu.

Að sögn Sameinuðu þjóðanna hafa yfir 400.000 manns flúið átökin í Mogadishu á undanförnum fjórum mánuðum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert