175 féllu í tilræðum í Írak í dag

Íraskir hermenn.
Íraskir hermenn. Reuters

Íraski herinn greindi frá því í kvöld að 175 manns að minnsta kosti hefðu látið lífið í þrem eða fjórum sjálfsvígstilræðum í grennd við Mosul í norðurhluta landsins, og um 200 særst. Þetta eru mannskæðustu tilræði sem framin hafa verið í landinu síðan í nóvember er bílsprengjur urðu 215 að bana í Sadr-borg.

Tilræðin voru framin í bæjum vestur af Mosul, og haft er eftir bæjarstjóra að kúrdísk yfirvöldi hafi heimildir fyrir því að al-Qaeda hafi verið að verki.

Herinn segir að skotmarkið hafi verið kúrdískur sértrúarsöfnuður, Yazidi, sem býr í grennd við Mosul. Spenna milli hópsins og múslíma á svæðinu hefur farið vaxandi undanfarið í kjölfar fregna um að stúlka úr söfnuðinum hafi verið grýtt til bana fyrir að hafa gerst múslími.

Tíu manns féllu í sjálfsvígstilræði í Bagdad í dag þegar brú í borginni var sprengd er fjöldi bíla var á henni.

Þá féllu fimm bandarískir hermenn er þyrla sem þeir voru í fórst vestur af Bagdad.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert